154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

heimavist við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

715. mál
[17:29]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ég skil vel að þingmaðurinn hafi sterkar taugar til þessa skóla. Bæði er það auðvitað þannig að framhaldsskólaárin eru ár breytinga og þroska og þau móta mann fyrir lífstíð þannig að sá tími hefur auðvitað sterk áhrif eins og þingmaðurinn rakti vel. En það er líka þannig að þetta er, alveg eins og þingmaðurinn fór yfir, einstaklega öflugur og flottur skóli, Fjölbrautaskóli Suðurlands. Ég hef heimsótt þann skóla sem menntamálaráðherra og fylgst með starfinu þar og það er gríðarlega öflugt og flott starf sem þarna er unnið, fjölbreytt nám, eins og þingmaðurinn nefnir, og samstarf og samvinna ráðuneytisins og stjórnvalda við þennan skóla og stjórnendur hans hefur verið gríðarlega öflugt og flott. Nægir að nefna nýlegt samstarf á milli Garðyrkjuskólans á Reykjum og Fjölbrautaskóla Suðurlands sem er að komast aðeins reynsla á og þroski núna og er verið að þroska áfram. Það eru breytingar sem standa þarna fyrir dyrum í skólanum, það eru mörg verkefni fram undan og skólameistari sem hefur verið skólameistari undanfarin ár var að tilkynna að hún sæktist ekki eftir endurskipun þannig að við vorum að auglýsa skólameistarastöðuna. Það er í farvegi.

Hv. þingmaður nefnir heimavistina og það er eitt af þeim verkefnum sem er á framkvæmdaáætlun um kennsluhúsnæði við starfsmenntaskóla. Við erum búin að ganga frá samningi um leigu, eins og þingmaðurinn nefndi, á húsnæði við heimavist Fjölbrautaskóla Suðurlands. Ég ætla ekki að rekja söguna á bak við heimavistina, það var gert ágætlega hérna í innganginum. Það er búið að gera þriggja ára samning um það húsnæði þannig að til þriggja ára er búið að tryggja húsnæði til heimavistar við Fjölbrautaskóla Suðurlands. En það er líka þannig að við gerum ráð fyrir framtíðarlausn fyrir heimavist á Fjölbrautaskóla Suðurlands og það verði byggð ný heimavist á lóð skólans. Það er hluti af framkvæmdaáætlun, eins og ég sagði áðan, um kennsluhúsnæði í starfsmenntaskólum. Raunar má segja að í þeirri framkvæmdaáætlun sem við erum búin að vera að vinna og skapa svigrúm til að gera og erum að forgangsraða einmitt verknámsskólunum þá er gríðarleg uppbygging fram undan gangi hún eftir eins og við gerum ráð fyrir við Fjölbrautaskóla Suðurlands því það er ekki bara heimavistin sem gert er ráð fyrir í þessari áætlun að rísi til næstu ára. Við erum líka að gera ráð fyrir viðbyggingu við verknámshúsið við fjölbrautaskólann og það er líka gert ráð fyrir endurbótum á byggingunum á Reykjum.

Þá er náttúrlega eðlilegt að menn velti fyrir sér: Eru þessar áætlanir fjármagnaðar? Ég segi strax að við erum búin að tryggja leigu á húsnæði til þriggja ára. Þá er eðlilegt að menn velti fyrir sér: Eru þessar framkvæmdir fjármagnaðar? Þetta er eitt af því sem ég hef lagt áherslu á við vinnslu fjármálaáætlunar núna. Það eru viðbyggingar og þær sem við nefnum hér eru inni í þeim áætlunum, í fjármálaáætlun. En það eru eilitlar breytingar sem við erum að óska eftir í millifærslum milli málefnaflokka og málefnasviða sem ég hef rætt við fjárlaganefnd og erum að vinna að með fjármálaráðuneytinu og ég reikna með að geti komið inn fyrir síðari umræðu fjármálaáætlunar. Gangi þær eftir þá erum við með þetta fjármagnað eins og staðan er í dag. Það sem getur hins vegar haft áhrif á það er ef framkvæmdakostnaður fer langt upp fyrir því að það eru viðbyggingar við allflesta verknámsskóla á landinu inni í þessu. Það kann að vera að það þurfi að uppfæra þetta á tímanum en við erum að reikna með því að þetta sé inni í þeirri framkvæmdaáætlun vegna þess, eins og þingmaðurinn nefndi, að þessi skóli er gríðarlega mikilvægur, sinnir stóru landsvæði, er með fjölbreytt nám og það hefur núna á síðustu misserum orðið enn fjölbreyttara og við höfum vilja til þess, m.a. í tengslum við uppbygginguna í Garðyrkjuskólanum á Reykjum, sem nú er undir FSu, og hefur farið vel af stað.